13.6.2012 16:21:00
Rúnar Helgi fékk þýðingarverðlaunin

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Rúnari Helga Vignissyni íslensku þýðingarverðlaunin á Gljúfrasteini í dag.

En Rúnar Helgi hlaut verðlaunin fyrir bókina Barndómur eftir J. M Coetzee sem Bjartur gaf út á síðasta ári. Bandalag þýðenda og túlka stendur fyrir íslensku þýðingarverðlaununum og er þetta í annað sinn sem þau eru veitt. Þá var Sigurður A. Magnússon kjörinn fyrsti heiðursfélagi Bandalags þýðenda og túlka á aðalfundi á síðasta ári.

Hér má lesa álit dómnefndar í heild sinni.

Dómnefndarálit

J.M. Coetzee. Barndómur. Svipmyndir frá uppvaxtarárum í Suður-Afríku. Þýðandi Rúnar Helgi Vignisson. Útgefandi Bjartur, 2005.

Rúnar Helgi Vignisson hefur á undanförnum árum auðgað íslenskar bókmenntir með metnaðarfullum þýðingum sínum á skáldsögum eftir helstu höfunda samtímans. Má þar nefna bandaríska rithöfundinn Philip Roth, breska höfundinn Ian McEwan og J.M. Coetzee frá Suður-Afríku. Rúnar hefur einnig leitað fanga hjá einum fremsta og áhrifamesta skáldsagnahöfundi Bandaríkjanna á 20. öld, William Faulkner, en þýðing Rúnars á skáldsögunni Light in August (Ljós í ágúst) kom út árið 1999.
Með þessum þýðingum hefur Rúnar Helgi unnið mikilvægt starf. Ekki síst skal honum hrósað fyrir að færa okkur framúrskarandi samtímabókmenntir á meðan þær eru nýjar og gera þær aðgengilegar á íslensku.
Með þýðingu sinni á sjálfsævisögu suður-afríska rithöfundarins J.M. Coetzee, Boyhood, heldur Rúnar Helgi þessu mikilvæga starfi áfram - áður hefur Rúnar þýtt skáldsögu Coetzees, Disgrace, eða Vansæmd (2000). Sagan Barndómur veitir einstaka innsýn í líf drengs sem leitast við að átta sig á sjálfum sér og heiminum í Suður-Afríku um miðja 20. öld. Hún fjallar um leit að sjálfsmynd en felur um leið í sér mun stærri sögu þeirra þjóða og þjóðarbrota sem byggja syðsta hluta Afríku. Á innan við tvöhundruð blaðsíðum tekst J.M. Coetzee hið ómögulega: að gefa okkur innsýn í sögu Suður-Afríku, um leið og hann horfist vægðarlaust í augu við eigin bernsku, horfist í augu við þrá og leynd sem lúrir á milli línanna, dvelur í hinu ósagða í sögu sem teljast verður yfirlætislaus og áleitin.
Þýðing Rúnars Helga kemur til skila fágætu hugrekki - jafnvel vægðarleysi – höfundar á tilgerðarlausan hátt. Eins og Rúnar bendir á í eftirmála bókarinnar þá hefur J.M. Coetzee – sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2003 - svarið orðræðu skáldskaparins eið, sú orðræða er laus við sýndarmennsku, hún er grimm en gjöful og sýnir okkur glímu manns og heims í nýju ljósi. Rúnar Helgi Vignisson kemur þessari glímu vel til skila, hann færir okkur hljóðláta rödd J.M. Coetzees og auðgar þannig íslenskar bókmenntir.

Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rúnar Helgi Vignisson skuli hljóta Íslensku þýðingarverðlaunin árið 2006 fyrir þýðingu sína á Boyhood eftir suður-afríska rithöfundinn John Maxwell Coetzee.

Ingibjörg Haraldsdóttir formaður
Þröstur Helgason
Eiríkur Guðmundsson






Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]