19.5.2014 17:35:00
"Starf þýðandans er net til að veiða vindinn"

Í dag voru veitt barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Andri Snær Magnason hlaut verðlaunin fyrir bókina Tímakistuna sem Mál og menning gaf út, en Þórarinn Eldjárn fyrir þýðingu á færeyska tónlistarævintýrinu Veiða vind eftir Rakel Helmsdal, Janus á Húsagarði og Kára Bæk, sem kom einnig út hjá Máli og menningu. Þetta er önnur þýðing úr færeysku sem hlýtur viðurkenningu á þessu ári (sjá frétt um Íslensku þýðingaverðlaunin).

Þórarinn komst ekki sjálfur til að taka við verðlaununum en sendi góðar kveðjur með tveimur sonum sínum sem veittu okkur góðfúslega leyfi til að birta stutt brot úr þakkarræðunni, því hún á ekki hvað síst erindi við þýðendur:

"Hann þakkar þennan mikla heiður en finnur sig þó knúinn til að taka fram að hann hafi aldrei verið almennilega klár á því hvað sé verið að verðlauna þegar þýddar bækur eru annars vegar.
Hvort er það besta þýdda bókin að mati dómnefndar eða best þýdda bókin?
Ef snilldarverk er illa þýtt, spyr hann, verður það þar með vont?
Og á sama hátt: Ef mjög vond bók er snilldarvel þýdd kemur þá út úr því góð bók?
Og í báðum tilfellum: Hvar er þá trúnaðurinn við frumhöfundinn?

Slíkar vangaveltur hafa löngum leitað svo sterkt á hann að hann neyddist að lokum til að yrkja þær frá sér. Það gerðist í kviðlingi sem heitir Þýðingafræði, birtist í kverinu Vísnafýsn árið 2010 og hljóðar svo:

Spurningu eina litla hér ég letra,
mig langar að vita hvort er talið betra:
Góðar þýðingar á vondum ómerkum verkum
eða vondar á góðum og merkum?


Þetta létti á honum og eftir því sem hann hugsaði meira um málið og af meiri yfirvegun komst hann loks að þessari niðurstöðu:

Besta þýdda bókin og best þýdda bókin er og hlýtur ávallt að vera ein og sú sama. Það er að segja: Góð bók sem ekki tókst að eyðileggja í þýðingu.

Starf þýðandans er net til að veiða vindinn."

Þýðingar komu þó meira við sögu, því Andri Snær færði Reykjavíkurborg að gjöf þýðingar á Bláa hnettinum á mörgum tungumálum, þó ekki færeysku.

Bandalag þýðenda og túlka óskar þeim Andra Snæ og Þórarni hjartanlega til hamingju.

Smellið hér til að sjá frétt af verðlaunaveitingunni á heimasíðu Reykjavíkurborgar.





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]