22.7.2013 13:48:00
Heimsþing esperantista í Hörpu
Heimsþing esperantista er haldið í Hörpu og fer fram dagana 20.-27. júlí. Heimsþingið hefur verið árlegur viðburður síðan 1905 og hefur einu sinni áður verið haldið á Íslandi, eða árið 1977 þegar 1200 manns sóttu þingið í Reykjavík. Gestir þingsins í ár koma frá 55 þjóðlöndum og dagskráin er fjölbreytt og nær til margra sviða mannlífsins. Á þinginu verða sérstakir fræðslufyrirlestrar um íslensk málefni og einnig stendur gestum til boða íslenskukennsla. Einnig er hægt að kynna sér íslensk öndvegisrit sem hafa verið þýdd á esperanto, til dæmis þýðingar Baldurs Ragnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar, en bækurnar er hægt að kaupa á Amazon. Fyrirlestrar eru að sjálfsögðu allir á esperanto.
Í kynningu á þinginu frá Esperantosambandi Íslands segir: "Yfirlýst meginefni þingsins í ár er tungumálaleg sanngirni í samskiptum milli málsvæða. Þetta tengist einmitt þeirri hugsjón esperantista að allar þjóðir fái að sitja við sama borð í samskiptum en þurfi ekki að laga sig að þjóðtungu annars, oft sterkara, ríkis."
Esperanto er tungumál sem pólski augnlæknirinn Ludvig Zamenhof bjó til seint á 19. öld til að leysa tungumálavanda heimsins og málið er eitt af mörgum sem hafa verið búin til beinlínis í því skyni að skapa hlutlaust alheimstungumál, þ.e. mál sem allir geta lært en enginn hefur að móðurmáli.
Hér er hægt að lesa meira um heimsþingið og einnig er hægt að finna upplýsingar um esperanto og íslensku esperantohreyfinguna á heimasíðu hennar, esperanto.is.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|