24.4.2014 14:39:00
Íslensku þýðingaverðlaunin 2014 - Ávarp Ingunnar

Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu á erlendu skáldverki voru veitt á Gljúfrasteini 23 apríl við hátíðlega athöfn. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra afhenti verðlaunin en þau hlaut Ingunn Ásdísardóttir fyrir þýðingu sína á færeysku skáldsögunni Ó - Sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen, sem Uppheimar gáfu út út. - Hér fer á eftir ávarp Ingunnar þegar hún tók við verðlaununum.

Menntamálaráðherra, aðrir gestir.

Það er mér mikill – og óvæntur – heiður að taka við þessum verðlaunum fyrir þýðingu á bókmenntaverki yfir á íslenskt mál.

Og ég þakka hjartanlega fyrir þessa viðurkenningu.

Ef ég man rétt, þá hafa þessi verðlaun oftar en ekki verið veitt fyrir þýðingar á klassískum bókmenntaverkum og án þess að kasta nokkurri rýrð á það, þá er það ánægjulegt að nú séu þau veitt fyrir þýðingu á svo sem einni samtímabókmennt og það frá enn minna málsamfélagi en okkar, Færeyjum.

Í rauninni held ég að fæstir gerist upphaflega þýðendur af hugsjón eða ákveði fyrirfram að gera þýðingar að ævistarfi. Oft grunar mig að aðstæður ráði nokkru þar um, starfið er ekki klukkubundið sem getur hentað vel í mörgum tilvikum.

En það sem margir gera sér ekki grein fyrir, er að þýðingarstarfið er líkt og fíkn – eftir fyrsta skotið er maður fallinn. Þýðingarstarfið verður ástríða og hjá flestum þeim sem stunda þýðingar að einhverju ráði ágerist sú ástríða stöðugt. Þýðingar eru að vísu einmanalegt starf, en þegar tveir þýðendur koma saman, þá verður þessi ástríða augljós, í áköfu spjalli, glampandi augum, pirringi út af vondum þýðingardæmum og heitum umræðum um merkingu orða á ýmsum tungumálum.

Að takast á við skemmtilegan, flottan, glæsilegan erlendan texta og gera honum viðunandi skil, er, held ég mörgum þeim sem unna móðurmáli sínu, ákaflega gefandi og heillandi verkefni.
En það er samt kannski ekki meginmálið. Meginmálið er að þýðingar eru mikilvægar. Það er mikilvægt að færa hverri þjóð erlenda menningu á eigin þjóðtungu. Og hér í okkar litla málsamfélagi, trúi ég að það sé jafnvel enn mikilvægara en í stórum.

Við málfræðiperrarnir – og nú sletti ég mér til skemmtunar – við hlustum með skelfingu á síaukna tilhneigingu fólks til að sletta erlendum orðum – og þá er ég ekki bara að tala um unga fólkið, heldur líka til dæmis fræðasamfélagið og fleiri starfsstéttir. Nú er ég ekki að mæla gegn því að málið megi breytast og þróast, en það er svolítið annað en þegar fólk slettir erlendum orðum, stundum mörgum í hverri setningu – sko ég chillaði alveg mega; umbreytir orðaröð í eitthvað óskiljanlegt – var skotið hann? það var sagt mér; kann heilu ensku dægurlagatextana utanbókar en skilur ekki að maður ætli að fá hvort tveggja í búðinni fyrr en maður segist ætla að fá bæði.

Og ég hef hitt flugmenn, heimspekinga, verkfræðinga sem ég skil ekki þegar þeir tala sitt fagmál. Að ekki sé talað um tölvugaura og íþróttafrík.

Tali Íslendingar um Ó – Sögur um djöfulskap eftir Carl Johan Jensen þætti mér betra að heyra sagt að hún sé geggjað flott heldur en að hún sé awesome.

Og við menningarvitarnir – við tölum líka áhyggjufull um að börn og unglingar lesi ekki nóg. En það er ekki rétt, ungt fólk les margt og mikið, allt mögulegt sem því finnst skemmtilegt. Bæði bækur og annað lesefni á rafrænu formi og ef vel ætti að vera þá ætti fólk að geta haft aðgang að öllu þessu lesefni á góðri íslensku.  Okkar litla tungumál er ekki bara kjarni og grundvöllur okkar sem þjóðar heldur og ekki síður tæki til að hugsa með sérstökum hætti sem er viðbót við sértæka hugsun í heiminum á öllum öðrum tungumálum þar sem eitt auðgar hitt.  Ég er ekkert viss um að sögurnar um Ísfólkið séu bestu bókmenntir í heimi, en ef ég hefði séð þær þýddar á fallega og góða íslensku, þá hefði ég ekki fitjað upp á trýnið þegar dóttir mín var að lesa þær hér á árunum.

Ég held að það sé ekki endilega ítrust nauðsyn að allar bækur séu óskaplega djúpar og bókmenntalega góðar, en þær þurfa að vera vel skrifaðar, vel þýddar.

Og þá er ég komin að kjarnanum og ábyrgðinni. Þýðingar eru mikilvægar, það þarf að leggja áherslu á að þýða allt sem hægt er, eins mikið og hægt er, hvort sem það eru bókmenntir, upplýsingar á tölvutæku formi, víkipedia eða hvað sem er, og þýða það vel. Til þess að svo megi verða þarf að efla þýðingarsjóð að miklum mun og auka fjölbreytni í fjármögnun til þýðinga verulega. Það er ekki nóg að hafa þýðingarmiðstöð í einhverju einu ráðuneyti og skera hana svo niður eftir pólitískum smag og behag. Það þarf að leggja þunga áherslu á að í öllum greinum sé hægt að ganga að efni á íslensku, góðri íslensku. Það þarf að efla rannsóknir á eðli þýðinga, gildi þýðinga, stórefla máltækni á sviði stafrænnar upplýsingamiðlunar því án þess missir íslenskan tilgang og deyr, það þarf að auka möguleika til þýðinga á efni á öllum sviðum og ekki síst þarf að sporna við því að vondar þýðingar á erlendu efni séu á kreiki í samfélaginu.

Aftur þakka ég fyrir veitta viðurkenningu.
Takk fyrir.






Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]