18.6.2012 20:04:00
Hjörleifur Sveinbjörnsson hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin 2009

- fyrir bókina Apakóngur á Silkiveginum

Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2009 voru afhent á Gljúfrasteini í fimmta sinn í dag. Að þessu sinni hlaut Hjörleifur Sveinbjörnsson verðlaunin fyrir þýðingu sína Apakóngur á Silkiveginum, sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum. JPV er útgefandi að hinu veglega verki og fagra prentgrip. Dómnefnd skipuðu þær Soffía Auður Birgisdóttir, formaður, Sigríður Harðardóttir og Marta Guðrún Jóhannesdóttir. Rökstuðningur dómnefndar er sem hér segir:

DÓMNEFNDARÁLIT:

Apakóngur á Silkiveginum. Sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum hefur að geyma brot úr nokkrum þekktustu bókmenntaverkum Kínverja frá fjórtándu öld fram til fjórða áratugar tuttugustu aldar. Hér er um að ræða brot úr stórum skáldsögum sem og smásögur og draugasögur. Þessi rit eru mikilvægur þáttur í kínverskri menningararfleifð sem kínverskur almenningur kannast almennt vel við. Frásagnir þeirra hafa mikil áhrif á kínversk viðhorf og menningu og margir nútímarithöfundar Kínverja hafa sótt til þeirra efnivið auk þess sem þær hafa lagt til efni í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðir hinn forna texta jafnt sem yngri sögurnar á afar vandaða og aðgengilega íslensku.

Texti Hjörleifs er aðdáanlega tilgerðarlaus og víða bregður fyrir skemmtilegum íslenskum nýyrðum sem styðja vel við þann anda og boðskap sem sögurnar leitast við að miðla. Auk þess að þýða sögurnar skrifar Hjörleifur fróðlegan formála að verkinu og hnitmiðaða kynningartexta á undan hverri sögu. Þannig auðveldar hann íslenskum nútímalesendum leiðina inn í heim kínverskar frásagnarlistar og opnar fyrir þeim framandi og heillandi veröld.

Sjá frétt um verðlaunaveitinguna á mbl.is 23. apríl: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/23/hjorleifur_fekk_islensku_thydingarverdlaunin/

og á visir.is: http://visir.is/article/20090423/FRETTIR01/336202056

og einnig á ruv.is: http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item261754/


ÁVARP FORMANNS, GAUTA KRISTMANNSSONAR:

Forseti Íslands, góðir gestir

Bandalag þýðenda og túlka stendur nú í fimmta sinn fyrir Íslensku þýðingaRverðlaununum og er það ánægjulegt að þessi árlega viðurkenning á bókmenntaþýðingum ársins 2008 skuli vera orðin svo föst í sessi. Þótt aðeins ein bók hljóti verðlaunin og fimm séu tilnefndar held ég mér sé óhætt að segja að þessi verðlaun hafi aukið veg og virðingu þýðenda í menningarsamfélaginu. Þýðngar hafa frá upphafi ritaldar hér á landi verið mikilvægur þáttur íslenskra bókmennta og veitt inn stefnum og straumum sem nauðsyn er hverri þeirri menningu sem ekki vill staðna í naflaskoðun og þröngsýni.

Betur má þó ef duga skal því þótt þýðingar hafi aukið hlut sinn úr 20 í 30 af hundraði í bókaútgáfu liðinna ára ef marka má Hagstofu Íslands, þá er þeim ennþá veitt töluvert minni athygli í fjölmiðlum og opinberri umræðu en vera ber að mínum dómi; oft eru merkustu verk hverrar bókavertíðar þýðingar og held ég að þær bækur sem í ár eru tilnefndar gefi innlendum verkum ekkert eftir.

Nú hafa tímarnir vissulega breyst og fróðlegt verður að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Stuðningsaðilar þessara verðlauna hafa hingað til verið Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda og er það einnig í þetta sinn og þökkum við fyrir það. Bókaútgefendur drógu að vísu úr stuðningi sínum í ár með þeim rökum að hentara væri að tilnefna bækurnar á jólavertíðinni og að lítil sala væri í þýddum bókum. Um það er vitanlega erfitt að dæma fyrir utanaðkomandi, en þó sýna metsölulistar jafn hátt ef ekki hærra hlutfall þýddra bóka en útgáfunni nemur og ætti það vera merki um að eitthvað af þýðingum seljist á ári hverju. Einnig má ætla að þýðingar seljist öðruvísi en jólabækurnar svokölluðu ef marka má umtalsverða útgáfu þeirra á öðrum árstíma. Vonandi hafa menn eftir sem áður áhuga á að lesa þýddar bækur og eru þessi verðlaun viðleitni til þess að svo sé.

Ég tel að það sé einmitt enn frekari ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að gleyma okkur ekki í naflaskoðuninni nú þegar við stöndum á tímamótum í efnahags- og stjórnmálum. Það hefur aldrei verið einkenni Íslendinga að draga sig inn í skel, ekki einu sinni á mestu niðurlægingarárum íslensks þjóðlífs og íslenskar fornbókmenntir áttu ekki lítinn þátt í menningaruppbyggingu ýmissa þjóðríkja í Evrópu og þarf ég aðeins að nefna Norðurlönd, Bretland og Þýskaland sem dæmi. Ég komst meira að segja að því fyrir nokkrum misserum að hugtakið heimsbókmenntir var fyrst skilgreint í Þýskalandi af sagnfræðingnum Ágústi Lúðvíki Schlözer í tengslum við íslenskar bókmenntir og sýnir það og hlutverk íslenskra bókmennta í evrópskri bókmenntasögu að Íslendingar eiga áþreifanlega og óbrotgjarna menningararfleifð í bókmenntum sínum, arfleifð sem lifir til dagsins í dag og ég er viss um að lifa mun af hrun íslenska fjármálakerfisins.

En þessi menningararfleifð varð til í samtali við þýðingar á bókmenntum annarra þjóða og það má ekki gleymast að viðhald þessa samtals menningarheimanna verður að vera gagnkvæmt. Við ættum ekki síst að hafa það í huga þegar við leiðum hugann að hinni miklu kynningu á íslenskum bókmenntum í Frankfurt eftir rúm tvö ár. Gleymum því ekki heldur að alla tíð hafa það verið þýðendur sem komið hafa íslenskum bókmenntum á framfæri við hinn stærri heim, rétt eins og samband okkar við hann felst í milligöngu þýðenda.

Fyrirkomulag verðlaunanna í ár var þannig að stjórn Bandalags þýðenda og túlka skipaði dómnefnd þriggja valinkunnra bókmenntakvenna, þeirra Soffíu Auðar Birgisdóttur, Sigríðar Harðardóttur og Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur. Vil ég hér þakka þeim það mikla og vandaða starf sem þær unnu fyrir okkur. Ég er viss um að bæði tilnefningar og og verðlaunahafi séu bæði þeim og okkur í Bandalaginu til sóma. Ég vil því núna gefa Soffíu Auði, formanni dómnefndar orðið áður en verðlaunin verða afhent. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson afhendir síðan Íslensku þýðingarverðlaunin.





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]