17.7.2012 17:44:00
Þýðingaverðlaunin 2011

Ávarp formanns, Rúnars Helga Vignissonar, á Gljúfrasteini 30. apríl 2011

Forseti Íslands og aðrir góðir gestir!

Fyrir skömmu hlýddi ég á fyrirlestur þar sem því var haldið fram að 50–90 prósent þeirra 7000 tungumála sem nú eru töluð í heiminum gætu dáið út á næstu 50–100 árum. Í máli fyrirlesarans, Peters Austins, prófessors við Lundúna-háskóla, kom líka fram að 4% mannkyns töluðu 96% þeirra tungumála sem fyrirfinnast í heiminum. Þetta þýðir að töluð eru mörg smá tungumál og það eru einmitt þau sem eru í mestri hættu. Að mati prófessorsins getur afstaða viðkomandi þjóðar til tungumáls skilið milli feigs og ófeigs.

Ég veit ekki hvort aldri mínum er um að kenna en núorðið finnst mér stundum að ungir Íslendingar umgangist tungu sína af fullmiklu kæruleysi og telji sig geta skipt henni út fyrir aðra með litlum tilkostnaði, haldi jafnvel að affarasælast sé að tala bara eitt tungumál í heiminum. Þýðendur eru þó undantekning, þeir bera mikla virðingu fyrir málinu og að mínu mati skrifa fáir ef nokkrir jafn fallega íslensku nú á dögum og okkar bestu þýðendur. Það sjáum við á bókunum sem tilnefndar hafa verið til verðlaunanna að þessu sinni. Þýðendur rækta garðinn og gera sitt til þess að viðhalda tungunni og sjá til þess að við eigum orð um flest það sem hugsað er hér á jörð. Þeim verður ekki kennt um það ef íslenskunni hnignar.

Við hjá Bandalagi þýðenda og túlka höfum með ýmsum hætti vakið athygli á þýðendum og því mikilvæga starfi sem þeir sinna. Þó verður að segjast eins og er að þýddum fagurbókmenntum er sýnt nokkurt tómlæti hérlendis, sem vekur spurningar um víðsýni Íslendinga og fróðleiksþorsta. Það er ekki sérlega uppörvandi fyrir bókmenntaþýðanda á lágum launum að verja mörgum mánuðum, jafnvel misserum, í að þýða öndvegisverk sem fær síðan litla sem enga umfjöllun og selst lítið. Til allrar hamingju eru þó til þýðendur sem setja slíkt ekki fyrir sig og halda áfram sínu hugsjónastarfi hvað sem tautar og raular.

Umfjöllun um þýðingarnar sjálfar, gæði þeirra og eðli, er í skötulíki hjá flestum fjölmiðlum. Menn kannast við klausu á borð við: „Ég hef að vísu ekki frumtextann við höndina en bókin virðist vera vel þýdd.“ Eða þá að gagnrýnandinn tínir til það sem orkar tvímælis í þýðingunni og gerir það að aðalatriðinu. Sjaldnar er aftur á móti bent á dæmi um vel heppnaðar þýðingalausnir. Þýðing er að sumu leyti flóknara verk en frumtexti og í mörgum tilfellum er lítið hægt að segja af viti um gæði þýðingar nema leggjast í samanburð á frumtexta og þýdda textanum. Því er oft raunalegt að sjá gagnrýnendur fjalla um metnaðarfullar þýðingar án þess að hafa skoðað málið nægilega vel. Íslenskum gagnrýnendum er þó nokkur vorkunn því ekki er ýkja langt síðan farið var að kenna þýðingarýni hér á landi. Afraksturinn af því námi er smátt og smátt að koma í ljós, ekki síst í tímariti þýðenda, Jóni á Bægisá, þar sem lesa má ítarlega umfjöllun um þýðingar. Þegar til lengdar lætur trúi ég því að sú rýni muni auka vöruvöndun.

Í verðlaunum á borð við þau sem hér verða veitt í dag felst líka þýðingarýni og umfram allt viðurkenning á því sem vel hefur tekist í þessum geira bókmenntanna. Við trúum því að með þessu sýnum við íslenskri tungu tilhlýðilega virðingu. Sem fyrr leggja Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda til verðlaunaféð. Í dómnefnd sátu að þessu sinni Kristján Árnason, verðlaunahafi síðasta árs, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir íslenskukennari og þýðandi og Steinunn Inga Óttarsdóttir bókmenntafræðingur; þeim er þökkuð sú mikla vinna sem þau hafa innt af hendi. Að svo mæltu gef ég formanni dómnefndar, Kristjáni Árnasyni, orðið.





Til baka

Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS

Bandalag þýðenda og túlka | Hrísmóum 11 | 210 Garðabær | [email protected]